Erlent

Tilboð um uppgjöf sagt lélegur brandari

Múammar Gaddafí einræðisherra Líbíu er velkomið að dveljast áfram í landinu ef hann gefst upp fyrir uppreisnaröflum sem krefjast þess að hann segi af sér.

Þetta segir leiðtogi uppreisnarmannanna Mustafa Abdel Jalil í samtali við Reuters fréttastofuna. Gaddafí hefur ávallt þvertekið fyrir að fara í útlegð en nú hafa uppreisnarmenn gert honum tilboð um að hann fái að dveljast áfram í landinu. Það yrði þó að vera á fyrirframákveðnum stað og undir eftirliti alþjóðasamfélagsins segir Jalil.

Gaddafí sjálfur hefur ekki brugðist við þessu tilboði uppreisnarmanna en það hefur Saif al-Islam sonur hans og næstráðandi hins vegar gert. Hann var fljótur til að gefa út yfirlýsingu eftir að tilboðið barst frá uppreisnarmönnum og í henni er tilboðið kallað lélegur brandari. Saif segir að uppreisnarmenn muni aldrei sigra í stríðinu og að Gaddafí og stuðningsmenn hans muni aldrei gefast upp.

Hann segir þá hins vegar tilbúna til að ræða um aðrar leiðir til lausnar, segist tilbúinn til þess að halda kosningar og að ný stjórnarskrá verði skrifuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×