Sport

Leikmenn í NFL-deildinni settir í vaxtarhormónapróf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Green Bay Packers eru ríkjandi meistarar í NFL-deildinni.
Green Bay Packers eru ríkjandi meistarar í NFL-deildinni. Nordic Photos/AFP
Allt útlit er fyrir að NFL-deildin verði fyrsta atvinnumannadeildin vestanhafs sem setur leikmenn í lyfjapróf með blóðprufu. Forráðamenn deildarinnar reikna með að hægt verði að setja leikmenn í deildinni í vaxtarhormónapróf frá fyrsta leikdegi.

Fyrsti leikdagur í deildinni er 8. september en undirbúningstímabilið hefst formlega á morgun.

„Við erum öruggir á því að prófunarferlið sem við höfum hannað verði til þess að leikmenn noti ekki vaxtarhormón. Um leið er þetta gott tækifæri til þess að mæla þá sem nota þau," sagði Adolpho Birch yfirmaður hjá NFL-deildinni sem hefur yfirumsjón með prófunum.

Leikmenn verða vikulega valdir af handahófi á æfingum bæði á meðan á tímabilinu stendur og að því loknu. Ekki er útilokað að leikmenn verði prófaðir á leikdögum en fram til þessa hefur deildin verið mótfallin því og sagt það of flókið.

„Ef leikmaður er virkilega heppinn eða óheppinn gæti hann verið prófaður 22-23 sinnum (á ári)," sagði Birch.

Engar opinberar tölur eru til um hve stórt hlutfall leikmanna í NFL-deildinni notar vaxtarhormón sem eins og gefur að skilja er ekki leyfilegt að nota. Fjölmiðlar hafa gefið í skyn að 10-20 prósent leikmanna hafi notast við hormónin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×