Innlent

Óttast fjölgun á glákutilfellum

Augnlæknar óttast að tilfellum gláku eigi eftir að fjölga á Íslandi þar sem sífellt færri fara í reglubundið eftirlit. Talið er að um fimm þúsund manns séu með sjúkdóminn á öllum stigum hérlendis og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Þetta kemur fram í Víðsjá, riti Blindrafélagsins. Gláka orsakast af skemmdum í sjóntaug, tauginni sem liggur frá auga til heilans. Oft er gláka tengd hækkuðum augnþrýstingi og sjóntaugin viðkvæmari fyrir honum.

Talið er að um 70 milljónir  um allan heim séu með gláku á einhverju stigi.  Reikna má með að um fimm þúsund manns séu með sjúkdóminn á öllum stigum hér á landi og hafa aldrei verið fleiri vegna vaxandi fjölda erlends fólks.

Þó eru mun færri með lokastig gláku en annars staðar og eru 62 skráðir blindir eða sjónskertir af völdum hennar, það er aðeins um fjögur prósent allra sjónskertra.

Guðmundur Viggósson augnlæknir segir í viðtali við blaðið að óttast sé að tilfellum gláku fjölgi að nýju. Fólk veigri sér við að fara til augnlæknis vegna efnahagsástandsins og verði kærulausara. Þrátt fyrir þá staðreynd hefur náðst mikill árangur með sjúkdóminn. Árið 1940 voru 71% blindra blindir vegna gláku.

Tíðnin var svona há vegna lélegra samgangna, lítils eftirlits og lélegrar læknisþjónustu. Árið 1992 var blinda vegna gláku komin niður í 7,3% og í dag stendur talan í 4%.  










Fleiri fréttir

Sjá meira


×