Innlent

Þrír skipaðir í rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar

Mynd/Valli
Róbert Spanó, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands hefur skipað þriggja manna rannsóknarnefnd sem ætlað er að rannsaka alla starfshætti og viðbrögð kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana á hendur vígðum þjónum og starfsmönnum kirkjunnar um kynferðisbrot eða annað ofbeldi.

Í nefndinni sitja Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari, sem er formaður. Hrefna Friðriksdóttir dósent við lagadeild og Jón Friðrik Sigurðsson yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítalans og prófessor.

Nefndinni er falið að skila rökstuddum niðurstöðum sínum til biskups kaþólskra eigi síðar en 1. september á næsta ári.


Tengdar fréttir

Harmar að skólinn bíði hnekki

Stjórn Landakotsskóla hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar Fréttatímans um kynferðisofbeldi gegn börnum innan Landakotsskóla á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Starfsfólk Landakotsskóla: Óendanlega sorglegt mál

„Það má öllum vera ljóst að núverandi stjórn og starfsfólk Landakotsskóla taka málið afar nærri sér og finnst þetta mál óendanlega sorglegt. Það veldur óhug meðal skjólstæðinga skólans, foreldra og nemenda. Við vonum að fórnalömbin fái að upplifa eitthvert réttlæti af hendi þeirra sem teljast ábyrgir að lokinni rannsókn opinberra aðila." Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem stjórn Landakotsskóla hefur sent frá sér vegna umræðu um kynferðisbrot innan skólans á árum áður. Þar er tekið fram að Landakotsskóli er ekki kaþólskur skóli í dag heldur sjálfstæð menntastofnun sem rekur forskóla- og grunnskóladeildir í húsakynnum Landakots. „Hjá skólanum starfa eingöngu kennarar með menntun frá Kennaraháskóla Íslands. Enginn kennari eða leiðbeinandi starfar þar á vegum kirkjunnar enda skólinn einkarekin sjálfseignarstofnun og hefur verið það síðastliðin 7 ár. Það eina sem er sameiginlegt með skólanum í dag og þeim skóla sem starfaði á þeim tíma sem þessir hræðilegu atburðir áttu sér stað, er nafnið og staðsetningin," segir í yfirlýsingunni. Einnig kemur fram að í vetur hafi starf skólans verið tekið út af Menntasviði Reykjavíkurborgar og að skólinn hafi þar fengið bestu niðurstöðu sem grunnskóli hefur fengið. „Stjórn og starfsfólk Landakotsskóla harmar að starfsemi skólans nú skuli þurfa bíða hnekki fyrir misyndisverk einstaklinga við skólann á fyrri tíð. Hugur starfsfólks Landakotsskóla er hjá þeim sem eiga um sárt að binda í þessu sorglega máli," segir í yfirlýsingunni.

Saka kaþólskan prest um kynferðislegt ofbeldi

Mál tveggja manna sem saka presta og starfsmann kaþólsku kirkjunnar á Íslandi um andlegt og kynferðislegt ofbeldi er til meðferðar hjá fagráði um kynferðisbrot. Annar mannana segir kennslukonu og skólastjóra Landakotsskóla hafa misnotað sig kynferðislega á löngu tímabili. Fjallað er um málið í Fréttatímanum í dag. Mál tveggja manna sem saka presta og starfsmann kaþólsku kirkjunnar á Íslandi um andlegt og kynferðislegt ofbeldi er til meðferðar hjá fagráði um kynferðisbrot. Annar mannana segir kennslukonu og skólastjóra Landakotsskóla hafa misnotað sig kynferðislega á löngu tímabili. Mennirnir sem stíga fram og segja sögu sína í Fréttatímanum í dag eru um fimmtugt. Brot gegn þeim eru fyrnd og hinir meintu gerendur látnir. Annar maðurinn segist hafa orðið fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi af hálfu sér A. George, sem var á þeim tíma skólastjóri Landakotsskóla, og Margrét Müller, þýskrar kennslukonu við skólann. Séra George var einn af valdamestu mönnum kaþólsku kirkjunnar hér á landi og sæmdur riddarakrossi fyrir störf sín. Margrét Müller var kennslukona við skólann. Hún bjó í einum af turnum skólans þar til hún svipti sig lífi. Lýsingar mannana, sem birtast í Fréttatímanum, eru sláandi. Þar er ofbeldið sagt hafa haldið áfram í sumarbúðum fyrir krakkana í Ölfusi. Í niðurlagi greinarinnar er sagt að fréttaflutningur á síðasta ári af kynferðisbrotum kaþólskra presta út í heimi hafi ýtt við mönnunum og fengið þá til að stíga fram með sögu sína. Þeir hafi skrifað Pétri Bürcher, biskupi kaþólikka hér á landi, bréf en fengið þau svör ekkert yrði aðhafst af hálfu kaþólsku kirkjunnar hér á landi.

Mál Müller til ákæruvaldsins

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er búin að rannsaka kynferðisbrot, sem beinist að Margréti Múller heitinni, þegar hún var kennari við Landakotsskóla. Málið hefur verið sent ákærusviði að sögn Björgvin Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Kaþólski biskupinn hafnar ásökunum um þöggun

Það er rangt að halda því fram að kaþólski biskupinn á Íslandi hafa þagað yfir ásökunum á hendur starfsmönnum kaþólsku kirkjunnar um kynferðislegt ofbeldi. Þetta segir Pétur Bürcher, biskup kaþólsku kirkjunnar, í yfirlýsingu til fjölmiðla vegna umfjöllunar Fréttatímans um ásakanir á hendur fyrrverandi skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans sem eru látin.

Nauðsynlegt að börnin segi frá

Fréttaflutningur af kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar hefur vakið sérlega mikinn óhug meðal fólks undanfarnar tvær vikur. Í kjölfar góðrar umfjöllunar Þóru Tómasdóttur á Fréttatímanum hefur opnast flóðgátt og tugir fyrrverandi nemenda í Landakotsskóla hafa greint frá ofbeldisverkum fólksins sem þar stjórnaði, þó fæstir þeirra hafi lent í kynferðislegu ofbeldi. Fólkið sem um ræðir er á öllum aldri og var í skólanum allt fram á þessa öld.

Vonar að séra George sé í helvíti

"Ef það er til helvíti, og mikið svakalega vona ég það, þá er hann þar. Hann var alveg skelfilegur maður. Hann talaði um að ef ég segði frá myndi mamma deyja." Þetta segir Iðunn Angela Andrésdóttir í viðtali í Fréttatímanum þar sem hún greinir frá kynferðislegu ofbeldi sem séra George, skólastjóri Landakotsskóla, beitti hana þegar hún var barn. Tvær konur stíga fram í Fréttatímanum í dag og greina frá því að séra Georg hafi misnotað þær kynferðislega þegar þær voru nemendur við Landakotsskóla. Angela segir skólastjórann hafa byrjað að misnotað sig þegar hún var tíu ára og að ofbeldið hafi staðið yfir í þrjú ár. "Hann þuklaði á mér, sleikti á mér eyrun, fór undir peysuna og þuklaði brjóstin á mér. Fór ofan í nærbuxurnar og stakk fingrunum inn í mig. Þegar ég var orðin aðeins eldri fór hann inn í fataherbergið og fróaði sér," segir Angela. Fréttatíminn greindi frá því í síðustu viku að fagráð um kynferðisbrot innan kirkjunnar hafi til meðferðar mál tveggja manna sem saka starfsmenn kaþólsku kirkjunnar um andlega og kynferðislega misnotkun. Í nýjasta tölublaðinu sem kom út í dag er umfjölluninni haldið áfram. Hin konan sem þar stígur nú fram, Rut Martine Unnarsdóttir, segir að sér hafi brugðið við að lesa lýsingarnar á ofbeldinu sem birtust í síðasta tölublaði Fréttatímans og að þær hafi ýtt við henni að segja frá sinni reynslu. Biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, séra Pétur Bürcher, sendi frá sér yfirlýsingu í liðinni viku vegna umfjöllunar Fréttatímans um kynferðisbrot starfsmanna kirkjunnar þar sem hann hafnaði ásökunum um þöggun. Hann sagðist taka ásakanirnar mjög alvarlega en velti því jafnframt upp hver væri réttur látinna einstaklinga sem sakaðir eru um þessi brot, en ásamt séra George var kennari við skólann, Margrét Müller sakaður um að hafa beitt nemendur ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×