Innlent

Sér ekki ástæðu til þess að stofna rannsóknarnefnd

Valgerður Bjarnadóttir.
Valgerður Bjarnadóttir.
Varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis hefur ekki nokkra trú á að þingstyrkur sé fyrir skipun rannsóknarnefndar til að rannsaka stuðning Íslands við aðgerðirnar í Líbíu. Hún segist ekki geta séð annað en að meirihluti hafi verið fyrir þessum stuðning á Alþingi.

Á flokksráðsfundi Vinstri grænna á Hótel Loftleiðum í gær var samþykkt ályktun þess efnis að því yrði beint til Alþingis að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að Ísland samþykkti aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Líbíu. Í ályktuninni segir að árásir bandalagsins hafi beinst að borgaralegum skotmörkum og valdið miklu tjóni og dauða fjölda óbreyttra borgara.

Ályktunin er athyglisverð fyrir þær sakir að formaður utanríkismálanefndar Alþingis er Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna. Ekki hefur náðst í Árna Þór, en Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður nefndarinnar, segist ekki hafa nokkra trú á að meirihluti sé fyrir því á þingi að skipa slíka nefnd.

Hún telur aðgerðirnar rúmist fyllilega innan samþykkta öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra mætt á fund utanríkisnefndar og útskýrt stöðu mála. Valgerður segir að á þeim fundi hafi hún ekki séð annað en að það væri meirihluti í nefndinni fyrir þessum aðgerðum.

Valgerður segir að það sé ekki léttvægt fyrir nokkurn mann að styðja hernaðaraðgerðir, en aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar til að koma Muammar Gaddafi frá sem hafi haldið þjóð sinni í heljargreipum í fjörutíu ár.

„Ég sé enga ástæðu til þess að stofna rannsóknarnefnd um þetta mál," segir Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×