Innlent

Loftárásir í fæðingabæ Gaddafi

Uppreisnarmenn í Líbíu stefna nú á fæðingarbæ Gaddafi.
Uppreisnarmenn í Líbíu stefna nú á fæðingarbæ Gaddafi. Mynd/AFP
Breskar orrustuþotur gerðu í nótt loftárásir á bæinn Sirte í Líbíu, sem er eitt síðasta vígi stuðningsmanna Gaddafís, einræðisherra. Uppreisnarmenn undirbúa nú allsherjar árás á bæinn.

Árásirnar í nótt beindust fyrst og fremst að stóru sprengjubyrgi í bænum Sirte, sem er liggur um fjögur hundruð kílómetra fyrir austan Trípólí höfuðborg landsins.

Tilgangurinn var að lama getu stuðningsmanna Gaddafís til að halda uppi skipulegum hernaði gegn uppreisnarmönnum sem nú búa sig undir allsherjar árás á bæinn. Ekkert bendir þó til þess að Gaddafí hafi verið staddur í byrginu þegar árásin var gerð.

Sirte er fæðingarbær Gaddafís og þar virðast stuðningsmenn hans ætla að heyja lokaorrustuna um Líbíú

Bráðabirgðastjórn uppreisnarmanna hefur nú flutt sig um set, frá borginni Benghazy til Trípólí þrátt fyrir að hersveitir hliðhollar Gaddafí ráði enn nokkrum hverfum þar í borg.

Sameinuðu þjóðirnar hvöttu stríðandi fylkingar í landinu í dag til þess að sýna stillingu en fregnir hafa borist af illri meðferð á stríðsföngum sem teknir hafa verið til fanga af báðum aðilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×