Innlent

Þriggja daga þrekraun lokið með glans

Þær voru stoltar og kaldar konurnar sem syntu minna Viðeyjarsundið á föstudag, hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu í gær og syntu stærra Viðareyjarsundið í dag.

Vinir og vandamenn sundkappanna stóðu á Hafnarbakkanum og hvöttu þá áfram síðasta spölinn. Stöllurnar syntu minna viðeyjarsundið á föstudag, það er frá Viðey að Skarfabakka, í gær hlupu þær tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu og í dag syntu þær stærra viðeyjarsundið, frá Viðey að Reykjavíkurhöfn.

Þær Sigrún og Kolbrún voru orðnar dálítið kaldar þegar þær klöngruðust upp á hafnarbakkann en þær voru strax vafnar handklæðum og klæddar í kuldagalla. Þeim var svo hlýr kakósopinn kærkominn.

Sædís Rán kom svo stuttu síðar en hún er átján ára gömul. Hún var eðlilega orðin þreytt og köld en eftir þriggja daga þrekraun var hún stolt og tilfinningarnar leyndu sér ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×