Innlent

Hið íslenska Louvre í Þjóðmenningarhúsinu

Unnið er að því að setja upp yfirlitssýningu yfir íslenska myndlist frá miðöldum í Þjóðmenningarhúsinu til frambúðar, sem verður eins og Louvre safnið sem Íslendingar hafa aldrei átt, að sögn safnstjóra Listasafns Íslands.

Sýningin þúsund ár hefur staðið í Þjóðmenningarhúsinu í sumar, en á sýningunni eru verk úr eigu Listasafns Íslands frá 19. öld til nútímans til sýnis. Safnstjórinn Halldór Björn Runólfsson, segir þó að þar sé aðeins að finna forsmekkinn að því sem koma skal, en þar er stigið fyrsta skrefið í þá átt að allir salir Þjóðmenningarhússins hýsi myndlist á Íslandi í aldanna rás til frambúðar.

Sú hugmynd kom fyrst fram fyrir um tveimur árum og er nú að verða að veruleika, en á næsta ári bætast verk frá Þjóðminjasafninu við þessa yfirlitssýningu íslenskrar listasögu, auk þess sem Árnastofnun er þegar með sýningu á jarðhæð hússins.

Engin yfirlitssýning af þessu tagi hefur áður verið til frambúðar hér á landi, og sakir húsnæðisskorts hafa mörg af fallegustu verkum Listasafnsins því endað í geymslum fjarri augum listunnenda, jafnvel um lengra skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×