Innlent

Óljóst hver áhrifin verða á borgarsjóð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dagur B. Eggertsson fagnar því að verkfalli hafi verið afstýrt. Mynd/ Valli.
Dagur B. Eggertsson fagnar því að verkfalli hafi verið afstýrt. Mynd/ Valli.
„Ég er auðvitað mjög feginn að verkfalli var afstýrt,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar. Leikskólakennarar skrifuðu undir kjarasamning við sveitarfélögin í gær og þar með var verkfalli afstýrt. Dagur bendir á að verkfall hefði ekki einungis þýtt vandræði fyrir foreldra og börn heldur hefði það líka verið stílbrot við þann frið sem hefur tekist skapa á vinnumarkaði. Búið sé að skrifa undir samninga við margar starfsstéttir til þriggja ára.

Dagur telur ekki tímabært að segja til um hvernig kostnaði vegna launahækkana verður mætt og bendir á að atkvæðagreiðsla á meðal leikskólakennara um samninginn verði mætt. „Við eigum líka eftir vinnu við að meta kostnað við þessa samninga og aðra líka,“ segir Dagur. Slíkar tölur verði lagðar fram í borgarráði fyrir lok mánaðarins. Einnig þurfi að liggja fyrir hvernig þróun tekna í samfélaginu verði. „Ég treysti mér ekki til þess að meta fjárhagsáhrifin né heldur hvernig við því verður brugðist,“ segir Dagur.

Hann bendir aftur á móti á að gera þurfi ráð fyrir aðhaldi áfram í öllum rekstri borgarinnar. „En við erum samt hægt og sígandi að sjá vöxt í tekjum og hagvöxt í samfélaginu. Þess vegna búumst við ekki við því að þurfa að fara í jafn stórtækar ráðstafanir og undanfarin ár,“ segir Dagur. Dagur segir jafnframt að borgin hafi þurft að taka misvinsælar en mjög nauðsynlegar ákvarðanir síðasta vetur og árin á undan líka sem muni skila sér í sparnaði á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×