Innlent

Metfjöldi barna hljóp í Latabæjarhlaupinu

Krakkarnir geisluðu af íþróttamennsku í miðbæ Reykjavíkur í dag.
Krakkarnir geisluðu af íþróttamennsku í miðbæ Reykjavíkur í dag.
Mikill fjöldi barna og foreldra tók þátt í Latabæjarhlaupinu, sem hófst í Hljómskálagarðinum klukkan tvö. Hlaupið er ætlað börnum 8 ára og yngri. Aldrei hafa fleiri börn tekið þátt í hlaupinu en í ár.

Í gær höfðu rúmlega 3.200 börn skráð sig til þátttöku, en auk þess var boðið upp á að skrá börnin í hlaupið í Hljómskálagarðinum í dag, og nýttu margir sér þann valkost. Eins og greint var frá í dag, hafa aldrei jafn margir hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu og í ár, og um Latabæjarhlaupið gildir hið sama, en í fyrra tóku 3.000 börn þátt í hlaupinu.

Skemmtidagskrá er í þann mund að hefjast á sviði sem búið er að reisa í Hljómskálagarðinum og munu þar Gunni og Felix stíga á svið auk Íþróttaálfsins, Sollu Stirðu og Glanna Glæps.

Lokahnykkurinn á Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka verða tónleikar í Hljómskálagarðinum sem hefjast kl. 20 í kvöld. Dúó Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhanns Helgasonar stígur á svið ásamt hljómsveitinni Nýdönsk sem leikur sín þekktustu lög. Magnús og Jóhann hefja tónleikanna klukkan 20 og Nýdönsk klukkan 21.25. Tónleikunum lýkur klukkan hálf ellefu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×