Innlent

Gláka er algeng orsök sjónskerðingar

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Gláka er þriðja algengasta orsök sjónskerðingar meðal Íslendinga en um fimm þúsund einstaklingar hér á landi eru með sjúkdóminn. Mjög mikilvægt er að greina gláku snemma en hann getur valdið óafturkræfum skaða á sjón.

Gláka er augnsjúkdómur sem einkennist af skemmdum í sjóntaug, tauginni sem liggur frá auga til heilans. Oft er gláka tengd hækkuðum augnþrýstingi og sjóntaugin viðkvæmari fyrirhonum en sjúkdómurinn er nær einkennalaus á fyrstu stigum.

,,Það saxast utan af sjónsviðinu smátt og smátt án þess að menn taki mikið eftir þar til að allt í einu menn uppgötva kannski að annað auga er blint" segir Guðmundur Viggósson augnlæknir.

Mikið er því í húfi að finna sjúkdóminn á byrjunarstigum en þá er hægt að halda einkennum niðri til dæmis með augndropum. Talið er að um fimm þúsund einstaklingar hér á landi séu með gláku á öllum stigum en einungis sextíu eru nú verulega sjónskertir eða blindir vegna sjúkdómsins, hér áður var gláka  hins vegar lang algengasta orsök blindu vegna þess að honum var lítið sinnt. Nú séum við hins vegar í fararbroddi í heiminum við að greina gláku á byrjunarstigum.

,,Það er mun minna af dulinni gláku hér, það er kannski tíu sinnum minna hér heldur en í Bandaríkjunum, vegna þess að fólk hér leitar mun meira til augnlækna" segir Guðmundur.

Hann segir sjúkdóminn liggja í genum og líkur á honum aukist með aldri. Augnlæknar greina gláku með prófun á augnþrýstingi og er sú prófun ávallt hluti af augnprófi hjá einstaklingum yfir fertugt. Augnpróf geta þó kostað sitt og því veigra margir sér við því að fara til augnlæknis á samdráttartímum og segir Guðmundur það vera áhyggjuefni.

„Menn eru búnir að missa ákveðinn hluta af sjóninni, orðnir blindir á öðru auga og verulega sjónskertir á hinu og það verður aldrei aftur tekið" segir Guðmundur og hvetur fólk yfir fertugt að fara reglulega í augnpróf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×