Fótbolti

Eru KSÍ og HSÍ að rífast um Birnu Berg?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. Mynd/Hag
Birna Berg Haraldsdóttir hefur verið valin í tvö landslið í sitthvorri boltagreininni og í verkefni sem rekast á. Ágúst Þór Jóhannsson A-landsliðsþjálfari í handbolta valdi hana í liðið sitt fyrir æfingamót í Póllandi sem fer fram 23. til 25. september í Póllandi en áður hafi Ólafur Þór Guðbjörnsson, landsliðsþjálfari U19 kvenna í knattspyrnu, valið hana í hópinn sem leikur í undankeppni EM hér á landi 17. til 22. september.

Birna Berg er aðeins 18 ára gömul, fædd 21. júní 1993 og hún er þegar orðin lykilmaður í sínum liðum, bæði í handbolta og fótbolta.

Birna Berg spilar sem örvhent skytta hjá Fram í handboltanum og var valin efnilegasti leikmaðurinn í N1 deild kvenna á síðustu leiktíð.

Í sumar hefur hún farið á kostum í marki nýliða ÍBV í Pepsi-deild kvenna sem hafa tryggt sér þriðja sætið í deildinni. Birna Berg hefur haldið marki sínu ellefu sinnum hreinu og hefur aðeins fengið á sig 11 mörk í 17 leikjum.

Birna Berg gæti jafnvel orðið fyrsti leikmaðurinn sem er ríkjandi efnilegasti leikmaðurinn bæði í handbolta og knattspyrnu verði hún líka kosin efnilegust í Pepsi-deild kvenna á lokahófi KSÍ í haust.

Það er ljóst að Birna Berg getur ekki verið á tveimur stöðum í einu og það líður aðeins tæpur sólarhringur frá því að 19 ára landsliðið leikur sinn síðasta leik í undankeppni EM á móti Wales á Fylkisvelli þar til að handboltalandsliðið leikur sinn fyrsta leik í Chorzow í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×