Körfubolti

Spánn aftur Evrópumeistari í körfubolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spánverjar fagna titlinum í kvöld.
Spánverjar fagna titlinum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Spánn varð í kvöld Evrópumeistari í körfubolta í annað skiptið í röð eftir sigur á Frökkum, 98-85, í úrslitaleiknum í Litháen í kvöld.

Juan Carlos Navarro, oft nefndur La Bomba, var valinn besti leikmaður keppninnar og hann átti stóran þátt í sigrinum í kvöld. Hann setti niður tvo þrista á mikilvægum tíma í þriðja leikhluta og kom Spánverjum í þægilega stöðu.

Navarro skoraði alls 27 í leiknum og Pau Gasol var einnig öflugur með sautján stig og tíu fráköst. Serge Ibaka átti frábærar rispur en hann varði til að mynda fimm skot á aðeins fimm mínútna kafla í leiknum.

Tony Parker var stigahæstur hjá Frökkum með 26 stig en Boris Diaw kom næstur með tólf stig.

Rússar fengu bronsverðlaun eftir sigur á Makedóníu í leik um þriðja sætið, 72-48. Andrei Kirilenko skoraði átján stig fyrir Rússa og Bo McCalebb 22 fyrir Makedóníu.

Lið mótsins var skipað þeim Navarro, Gasol, Parker, Kirilenko og McCalebb.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×