Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur skipað fjögurra manna starfshóp til að fara yfir svonefnd Guðmundar- og Geirfinnsmál. Starfshópurinn skal skila ráðherra áfangaskýrslu fyrir lok apríl á næsta ári en þetta kom fram á blaðamannafundi sem ráðherra hélt í dag. „Starfshópnum er falið að fara yfir málið í heild sinni en sérstaklega þá þætti sem snúa að rannsókn þess og framkvæmd rannsóknarinnar. Þau gögn sem komið hafa fram á síðustu misserum og árum verði tekin til athugunar. Í áfangaskýrslu komi fram hvort og þá til hvaða ráðstafana þurfi að grípa varðandi framhalds málsins. Starfshópurinn mun geta kallað sérfræðinga til ráðgjafar eftir því sem hann telur þörf á,“ segir í tilkynningu.
Starfshópinn skipa:
Arndís Soffía Sigurðardóttir, lögfræðingur og lögreglumaður, sem er formaður hópsins. Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur og dr. Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þá starfar með hópnum Valgerður María Sigurðardóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneyti.
Arndís Soffía er lögfræðingur, með próf frá Lögregluskóla ríkisins og hefur starfað sem lögreglumaður og varðstjóri. Hún starfar nú sem fulltrúi hjá sýslumannsembættinu á Selfossi.
Haraldur Steinþórsson er lögfræðingur á lögfræðisviði fjármálaráðuneytisins.
Dr. Jón Friðrik Sigurðsson prófessor starfaði um árabil sem sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, hefur stundað kennslu- og rannsóknarstörf og hefur frá árinu 2001 verið yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss.
Almenningur hefur látið sig Guðmundar- og Geirfinnsmál varða. Þannig hefur innanríkisráðherra fengið í hendur 1.190 undirskriftir þar sem skorað er á ráðherra ,,að beita sér fyrir endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála, sem og rannsókn á vinnubrögðum þeirra sem fóru með rannsókn málanna," eins og segir í inngangi áskorunarinnar.
