Erlent

Apple þróar sjónvarp

Steve Jobs kynnir Apple TV árið 2006.
Steve Jobs kynnir Apple TV árið 2006. mynd/AFP
Talið er að Apple sé nú að þróa nýja kynslóð sjónvarpa. Talsmenn tölvurisans vilja ekkert tjá sig um málið en nú þykir ljóst að hönnuður iTunes, Jeff Robbin, hafi verið fenginn til að þróa hugmyndina.

Þátttaka Robbins í verkefninu þykir bera vitni um ætlun Apple um að auka við forskot sitt í stafrænni þjónustu og skemmtun með því að yfirtaka stofur neytenda.

Lítið er vitað um verkefnið en í óútgefinni ævisögu sinni segir Steve Jobs, fyrrverandi forstjóri Apple, að hann hafi loks áttað sig á hvernig hægt væri að samhæfa sjónvarp, snjallsíma og tölvu.

Hingað til hafa tilraunir Apple með sjónvarp verið takmarkaðar. Fyrir nokkru gaf fyrirtæki út Apple TV sem tengist sjónvarpi og leyfir neytendum að tengjast YouTube og Netflix í gegnum sjónvarpið - ásamt öllu því efni sem er á iTunes.

Sérfræðingar telja að Apple muni kynna sjónvarpið seint á næsta ári og það muni vera tengt iCloud þjónustu Apple, ásamt því að innihalda aðstoðarforritið Siri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×