Innlent

Listasafn Reykjavíkur hættir líka að auglýsa hjá Pressunni

Listasafn Reykjavíkur.
Listasafn Reykjavíkur.
Listasafn Reykjavíkur hefur hætt birtingum á öllum auglýsingum á vefmiðlinum Pressan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá safninu en ástæðan er umdeild myndbirting af meintu fórnarlambi kynferðisofbeldis sem Pressan birti í gær. Vefurinn tók hinsvegar myndina og fréttina út og báðust afsökunar á mistökunum.

Myndbirting Pressunnar vakti hörð viðbrögð í samfélaginu og úr varð að vefurinn fjarlægði myndina að beðni lögmanns stúlkunnar. Síðar var fréttin fjarlægð í heild sinni og baðst ritstjóri Pressunnar, Steingrímur Sævarr Ólafsson, afsökunar á myndbirtingunni.

Í tilkynningu frá listasafninu segir að það vilji með þessu móti hvetja til ábyrgrar og vandaðrar umfjöllunar í fjölmiðlum.

Þegar hefur Happdrætti Háskóla Íslands hætt að auglýsa hjá Pressunni vegna sama máls. Þá greindi vefsíða DV frá því fyrr í dag að Þjóðleikhúsið hefði gert slíkt hið sama.

Ekki náðist í stjórnarformann og útgefanda Vefpressunnar, Björn Inga Hrafnsson, né ritstjóra Pressunnar, Steingrím Sævarr Ólafsson, þegar eftir því var leitað.


Tengdar fréttir

Happdrætti Háskóla Íslands hættir að auglýsa á Pressunni

Happdrætti Háskóla Íslands hefur látið fjarlægja auglýsingaborða sinn á fréttavefnum Pressan.is til þess að mótmæla myndbirtingu á meintu fórnarlambi kynferðisofbeldis. Þetta fékkst staðfest á skrifstofu happdrættisins, ekki náðist þó í forstjórann, Bryndísi Hrafnkelsdóttur, vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×