Innlent

Dansarinn útskrifaður af gjörgæslu og á batavegi

SB skrifar
Steve Lorenz dansari mun ná sér að fullu.
Steve Lorenz dansari mun ná sér að fullu.

Dansarinn Steve Lorenz er útskrifaður af gjörgæsludeild og á batavegi. Í yfirlýsingu frá Íslenska dansflokknum og Borgarleikhúsinu kemur fram að hann muni ekki bera skaða eftir slysið og stefnir að því að mæta aftur til æfinga og sýninga innan skamms.

„Eins og fram hefur komið slasaðist Steve Lorenz, dansari Íslenska dansflokksins alvarlega á æfingu flokksins í Borgarleikhúsinu föstudaginn 21. janúar síðast liðinn. Í kjölfarið var hann lagður inn á gjörgæsludeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi," segir í tilkynningunni.

Steve var við æfingar á nýju dansverki þar sem sirkustækni er blandað saman við nútímadans. Hann flæktist í köðlum og kafnaði og var ákveðið að halda honum sofandi á spítalanum. Sýning á Ofviðrinu var felld niður vegna slyssins en Steve dansar í þeirri sýningu.

„Bati Steve hefur gengið hraðar og betur en nokkur þorði að vona. Nú fyrir helgi var hann útskrifaður af Landsspítalanum og nú safnar hann kröftum á heimili sínu. Ljóst er að hann mun ekki bera skaða eftir slysið og stefnir að því að mæta fljótt aftur til æfinga og sýninga.

Íslenski dansflokkurinn og Borgarleikhúsið vilja færa læknum, lögreglu og starfsfólki Landsspítala Háskólasjúkrahúss bestu þakkir fyrir framúrskarandi störf við úrlausn mála í kjölfar slyssins. Ástæða þess að það fór jafn vel og raun ber vitni eru hárrétt viðbrögð þessara aðila sem og starfsfólks Íslenska dansflokksins og Borgarleikhússins. Fyrir það erum við óendanlega þakklát."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×