Innlent

Jónsi kallaði konur hórur á Bestu hátíðinni

SB skrifar
Jón Jósep Snæbjörnsson, oft kallaður Jónsi í Svörtum fötum, vakti hneykslan á Bestu útihátíðinni þegar hann ávarpaði gesti á hátíðinni: „Herrar mínir og hórur". Talskona Nei - hópsins, sem berst gegn kynbundnu ofbeldi, segir hegðun Jónsa fyrir neðan allar hellur.

„Þetta er úr takti við allt sem er í gangi á þessari hátíð og endurspeglar vanvirðingu við konur," segir Dagný Óskarsdóttir, talskona Nei hópsins, en hópurinn er sýnilegur á hátíðinni og berst gegn kynbundnu ofbeldi.

Dagný vakti máls á hegðun Jónsa á Fésbókar-síðu sinni í gær. Hún lýsti því þegar Jónsi ávarpaði áhorfendur og bætti svo við: „Eru ekki allar hórurnar í stuði? Ég fer ekki úr að ofan fyrr en það kemur berbrjósta stelpa upp á svið."

Skrif Dagnýjar hafa vakið mikla athygli og fjölmargir birt ummælin á Fésbókar-síðum sínum.

„Mér skilst að hann hafi verið eitthvað sorrý eftir þetta,“ segir Dagný og bætir við: „Biggi í Maus, umboðsmaður Quarashi talaði við hann eftir tónleikana og sagði honum að svona ætti maður ekki að haga sér en Quarashi gáfu hluta launa sinna fyrir að spila á hátíðinni til Stígamóta. "

Dagný segir það miður að Jónsi hafi varpað skugga á það góða starf sem verið er að vinna á hátíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×