Innlent

Ný brú kostar 400 milljónir - hringvegurinn lokaður næstu þrjár vikur

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hringvegurinn verður lokaður frá Vík austur yfir Mýrdalssand næstu tvær til þrjár vikurnar. Stórtjón varð þegar brúin yfir Múlahvísl fór en ný kostar á bilinu þrjú til fjögur hundruð milljónir.

Þegar hlaupið hreif með sér brúna yfir Múlahvísl í morgun rofnaði þjóðvegur 1.

Það er lokað núna má segja frá Vík og austur yfir Mýrdalssand sem lokar á alla umferð fyrir þá sem eru fyrir austan Mýrdalssand í átt til höfuðborgarinnar. Þannig að þeir verða þá að fara norður um til að komast suður. Þannig að það er stór hluti af hringveginum, nokkuð margir kílómetrar, sem að eru ekki opnir fyrir umferð," segir Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri.

Þeir sem eru jeppum og jepplingum geta þó farið yfir fjöllin, í gegnum Landmannalaugar en fjallabaksleið nyrðri var opnuð í gær. Leiðin er ekki fær fólksbílum.

Ný brú kostar að minnsta kosti 400 milljónir

Ljóst er að um stórtjón er að ræða þó endanlegt tjón liggi ekki fyrir. Stefnt er að því að hefja byggingu bráðabirgðabrúar strax eftir helgi.

„Þetta eru hundruðir milljóna. Bara ný brú, þegar hún verður endurbyggð kostar væntanlega þrjú til fjögur hundruð milljónir, að minnsta kosti. Svo eru vegir varnargarðar líka ónýtir. Síðan kostar að koma upp þessari bráðabirgðabrú sem við munum byrja á að gera strax eftir helgina ef mál þróast þannig að þessu sé að ljúka," segir Hreinn.

Nokkurn tíma getur tekið að reisa bráðabirgðabrú en brúin yfir Múlahvísl var 128 metrar að lengd.

„Það er verið að draga saman allt tiltækt efni, það er stálbita og timbur og annað slíkt sem þarf til að gera bráðabrigðabrú. Hún þarf að vera nokkuð löng því þetta er vatnsmikil jökulá. Þetta þarf að vera jafnvel hundrað metra löng bráðabirgðabrú. Við teljum að það þurfi að lágmarki tvær til þrjár vikur til þess að byggja hana. Það þarf að reka staura langt niður í aurinn til þess að byggja síðan sjálfa brágðabirgðabrúna á. Þannig að því miður þá er engin umferð um sandinn fyrr en eftir einhverjar vikur," segir Hreinn.

Í forgang hjá ríkisstjórninni

Vegamálastjóri fór ásamt innanríkisráðherra á hamfarasvæðið í dag til að skoða áhrif hlaupsins.

„Þetta hefur mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna og fyrir samfélagið allt. Við munum allt sem í okkar valdi stendur til að koma á vegasamgöngum sem hið allra fyrsta. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja þetta í algjöran forgang," segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×