Innlent

Sorpa reisir dýra gas- og jarðgerðarstöð

Mikil áhersla hefur verið lögð í að framleiða sem mest gas á Álfsnesi en án nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar yrði Sorpu ekki kleift að vinna gas úr 30 þúsund tonnum af sorpi eftir 2013.
Mikil áhersla hefur verið lögð í að framleiða sem mest gas á Álfsnesi en án nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar yrði Sorpu ekki kleift að vinna gas úr 30 þúsund tonnum af sorpi eftir 2013. mynd/valli
Oddný Sturludóttir
Sorpa áformar að reisa gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi en heildarkostnaður við hana gæti orðið vel á annan milljarð að sögn Bjarna Gnýs Hjarðar, yfirmanns þróunar- og tæknideildar Sorpu.

Oddný Sturludóttir, stjórnarformaður Sorpu, segir að stefnt sé að því að stöðin verði reist í áföngum og að vonir standi til þess að einhverjir þeirra verði tilbúnir í júlí 2013 en þá tekur gildi Evróputilskipun um að draga úr urðun á lífrænum úrgangi um helming frá því sem hún var árið 1995. Það ár var slík urðun um 60 þúsund tonn þannig að Sorpa stendur frammi fyrir því að geta ekki urðað 30 þúsund tonn og þar með geta ekki unnið úr því metangas.

„Ef þessi stöð verður ekki til staðar árið 2013 þá fer sá möguleiki til spillis að geta unnið gas úr þessum 30 þúsund tonnum en við gætum hins vegar nýtt hann til jarðgerðar,“ segir Bjarni Gnýr. Hann segir þó hug Sorpumanna standa til þess að geta unnið sem mest af metangasi en eftirspurnin eftir því fer hríðvaxandi. Gas- og jarðgerðarstöðin myndi einnig gera Sorpu kleift að nýta úrganginn betur. Til dæmis fer sigvatn til spillis nú um leið og það rennur úr haugnum en í nýrri stöð væri hægt að nýta það einnig til gasvinnslu.

„Sveitarfélögin sem standa að Sorpu hafa ekki tekið endanleg ákvörðun um það hversu hratt verður farið í þessa framkvæmd,“ segir Oddný. „Við settum af stað mikla úttekt og greiningu á stöðu byggðarsamlaganna og þeim verkefnum sem fyrir liggja hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og við erum að rýna í niðurstöðurnar núna en það liggur ljóst fyrir að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru tilbúin að koma þessari gas- og jarðgerðarstöð á koppinn í áföngum.“

Oddný segir að fleiri breytingar standi til í sorpumálum hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins sem lúti að frekari flokkun sorps. „Þetta verður gert með það fyrir augum að koma verðmætu hráefni, sem ruslið er, til frekari vinnslu,“ segir hún.

„Þetta er frábært tækifæri til umhverfisuppeldis í nærumhverfinu þannig að fólki verði ljóst að við eigum ekki að kasta frá okkur rusli heldur losa okkur við það á ábyrgan hátt. Krakkarnir eru núorðið með þetta á hreinu en nú þurfum við fullorðna fólkið að fara að taka við okkur,“ segir Oddný.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×