Innlent

Varasamar biðstöðvar þyrnir í augum Strætó

Á efri myndinni má sjá farþega bíða eftir vagni á biðstöðinni norðan Vesturlandsvegar. Þeir sem standa lengst til vinstri skýla sér fyrir umferðinni á bak við vegrið. Á neðri myndinni má sjá brekkuna sem farþegar þurfa að klífa til að komast í strætó.
Á efri myndinni má sjá farþega bíða eftir vagni á biðstöðinni norðan Vesturlandsvegar. Þeir sem standa lengst til vinstri skýla sér fyrir umferðinni á bak við vegrið. Á neðri myndinni má sjá brekkuna sem farþegar þurfa að klífa til að komast í strætó. Mynd/Pjetur
„Þetta er ekki til fyrirmyndar," segir Einar Kristjánsson, hjá skipulags- og þróunarsviði Strætós, um tvær biðstöðvar á Vesturlandsvegi.

Aðstæður við biðstöðvarnar tvær verða seint kallaðar góðar. Sú norðanmegin götunnar, við Viðarhöfða, stendur þétt við akbrautina og engin leið er að henni nema upp brattan grasbala. Vandséð er að fatlaðir, fólk með barnavagna eða aðrir sem komast ekki óhindrað leiðar sinnar geti með góðu móti tekið strætisvagn til eða frá stöðinni.

Hinum megin götunnar, hjá bensínstöð Skeljungs, er biðstöðin sömuleiðis svo þétt við fjölfarinn Vesturlandsveginn að varla nokkuð skilur farþegana frá götunni annað en kantsteinninn.

Einar bendir á að Strætó hafi lítið um biðstöðvarnar sjálfar að segja, þær séu á forræði hvers sveitarfélags fyrir sig. „En við vinnum þetta mjög náið með sveitarfélögunum og höfum í tæp fjögur ár verið að berjast fyrir breytingum á þessum stöðvum á Vesturlandsveginum," segir Einar.

„Vandræðin liggja í því að Vesturlandsvegurinn er ríkisvegur innan þéttbýlis. Reykjavíkurborg og Vegagerðin þurfa þess vegna að ná samkomulagi um þessi mál og við erum í rauninni bara lúsin milli tveggja nagla," bætir hann við.

Einar segir hins vegar að nýlega hafi borist bréf frá borginni þar sem lausn sé sögð í sjónmáli. Búið sé að teikna upp nýja biðstöð norðan megin og gera tillögu um að færa þá sunnan megin niður á Viðarhöfða. „Það mun hins vegar tefja vagninn og svo mikið að við vitum ekki alveg hvort við getum sett það inn í okkar áætlun," segir hann.

„Við höfum helst viljað leggja þessa biðstöð niður," segir Einar. Það sé hins vegar ekki ákvörðun Strætós og biðstöðin sé töluvert notuð. Vonandi hilli hins vegar undir lausn. Strætó fundi reglulega með framkvæmdaráði borgarinnar.

„Og þessar biðstöðvar eru alltaf með á hverjum einasta fundi og verða það þangað til lausnin er fundin."

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×