Erlent

Hafðu púff þetta púff púff ódámurinn þinn

Óli Tynes skrifar
Let it snow....
Let it snow.... Mynd/Wikipedia

Mál tveggja eftirlaunaþega í Svíþjóð er til rannsóknar hjá lögreglunni eftir að þeir börðust með snjóskóflum svo blóðið flaut. Ingvar Flood er 71. árs og Francesco Fusco er 81. árs. Þeir búa báðir í Smálöndum í Svíþjóð í grennd við Jönköping.

Ekki nóg með að þeir búi þar báðir, þeir eru nágrannar. Hús þeirra standa hlið við hlið. Það hefur snjóað býsnin öll í Smálöndum eins og annarsstaðar í Svíþjóð þennan veturinn. Það hefur valdið nágrannaerjum.

Þegar Francesco er að moka stéttina sína út á götu hefur hann fyrir sið að fleygja snjónum upp að grindverki Ingvars. Það fer ógurlega í taugarnar á Ingvari. Þegar Ingvar er að moka sína stétt hefur hann fyrir sið að fleygja snjónum upp að póstkassa Francescos. Það fer ógurlega í taugarnar á Francesco.

Í gær sauð svo uppúr. Francesco barði Ingvar í hausinn með snjóskóflunni sinni og Ingvar skellti Francesco um koll með sinni snjóskóflu. Eiginkona Francescos kom eitthvað að málinu og fauk út í skafl.

Francesco hefur nú kært Ingvar til lögreglunnar. Og Ingvar hefur kært Francesco til lögreglunnar. Lögreglan rannsakar málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×