Erlent

Vilja ekki fýlupúka í trúnaðarstörfum

Julian Assange og félagar í Wikileaks valda miklum usla í bandarískri stjórnsýslu með birtingu trúnaðarskjala. Stjórn Obama freistar þess að hindra frekari leka á gögnum. NordicPhotos/AFP
Julian Assange og félagar í Wikileaks valda miklum usla í bandarískri stjórnsýslu með birtingu trúnaðarskjala. Stjórn Obama freistar þess að hindra frekari leka á gögnum. NordicPhotos/AFP
Hvíta húsið í Washington hefur fyrirskipað að gerðar verði áætlanir til að meta hugsanlega hættu innanhúss í opinberri þjónustu. Að sögn BBC er markmiðið að finna þá óánægðu starfsmenn sem gætu lekið ríkisleyndarmálum.

„Aðgerðin kemur í kjölfar þess að þúsundum bandarískra trúnaðar­skjala var lekið til Wikileaks,“ segir BBC sem kveður stjórn Baraks Obama vilja koma í veg fyrir fleiri vandræðalegar afhjúpanir.

„Leyniþjónustumenn eru hvattir til að finna leiðir til að sjá út breytingar á hegðun þeirra starfsmanna sem kunna að hafa aðgang að trúnaðargögnum,“ segir BBC sem kveður ýmsar aðferðir við þetta vera nefndar í ellefu síðna minnisblaði frá starfsmönnum leyniþjónustunnar. Meðal annars eigi sálfræðingar og félagsfræðingar að mæla „hlutfallslega hamingju“ og „örvæntingu“ og „fúllyndi“ til að meta hvort viðkomandi starfsmaður sé trausts verður.

Í minnisblaðinu, sem sent var yfirmönnum allra stofnana sem fara með trúnaðargögn, er meðal annars spurst fyrir um hvort stofnanirnar noti lygamæla og hvort þær fylgist með því hvort starfsmenn þeirra ferðist óeðlilega oft til útlanda eða hafi mikil erlend sambönd. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×