Erlent

Enn magnast flóðin í Queensland

MYND/AP

Flóðin í Queensland í Ástralíu virðast alls ekki í rénum. Allt að 20 þúsund heimili eru nú í hættu í Brisbane, þriðju stærstu borg Ástralíu og gætu orðið flóðunum að bráð, segir ríkisstjórinn í Queensland.

Miðborgin líkist nú helst draugabæ, rafmagn hefur verið tekið af og þúsundir manna hafa yfirgefið hús sín eða verið sagt að halda sig heimavið. Tala látinna vegna flóðanna í Queensland er nú komin upp í tólf en óttast er um fleiri þar sem tuga er saknað en lögregla segist vera að leita að um 90 manns. Ástralski herinn hefur sent mikinn liðsafnað á svæðið og taka hermennirnir þátt í björgunarstörfum og leit að fólki.

Bærinn Ipswich, vestan Brisbane, var flóði að bráð í nótt og er nú umlukinn vatni. Eini ljósi punkturinn er sá að rigningunni hefur slotað en ástæða flóðanna eru miklar rigningar í ríkinu síðustu vikur. Ár og lækir hafa einfaldlega ekki haft við og flætt yfir bakka sína með hrikalegum afleiðingum.

Búist er við að flóðin í Brisbane nái hámarki á morgun og haldist þannig fram á laugardag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×