Erlent

Íbúar í Brisbane búa sig undir stórflóð

Íbúar fylgjast með vatnsborði Brisbane-árinnar hækka.
Íbúar fylgjast með vatnsborði Brisbane-árinnar hækka.
Það var engu líkara en að tsunami-flóðbylgja hefði skollið á bænum Toowoomba í Ástralíu á mánudag. Glugga­­rúður sprungu í húsum og bílar þeyttust upp í tré og skoppuðu í flóðinu eins og korktappar.

Brýr og gangbrautir skoluðust burt og fjöldi manns reyndi að halda dauðahaldi í staura og tré til að berast ekki með vatnsflaumnum.

Að minnsta kosti tíu manns létu lífið en nærri áttatíu er enn saknað og er óttast að margir þeirra séu látnir.

„Vatnið bókstaflega stökk sex eða tíu fet [tvö til þrjá metra] upp í loft, gegnum árfarvegi og yfir brýr og inn í almenningsgarða,“ segir Greg Kowald, rúmlega fimmtugur tónlistarmaður sem var á ferð í bifreið sinni þegar ósköpin dundu yfir. „Það var engin leið að komast undan, jafnvel þótt viðvörun hefði borist. Þetta var bara kílómetra breiður vatnsveggur.“

Alls hafa þá tuttugu manns farist í flóðunum í norðaustanverðri Ástralíu síðustu daga, sem stafa af óvenju mikilli úrkomu. Flóðin stefndu í gær í áttina til borgarinnar Brisbane, þar sem óttast er að um níu þúsund hús fari undir vatn á næstu dögum.

Flóðin í ár virðast ætla að verða þau mestu sem þekkst hafa á þessum slóðum.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×