Erlent

Ástum steinbítanna lauk með harmleik

Hængurinn hringaði sig ekki um hrognaklasann eins og við var búist heldur sökkti skoltunum í tilvonandi afkvæmi sín. Hann át um þriðjung þeirra.
Fréttablaðið/Óskar P. Friðriksson
Hængurinn hringaði sig ekki um hrognaklasann eins og við var búist heldur sökkti skoltunum í tilvonandi afkvæmi sín. Hann át um þriðjung þeirra. Fréttablaðið/Óskar P. Friðriksson
„Steinbítshrygnan hrygndi um hálfáttaleytið [í fyrrakvöld]. Hængurinn hefði átt að taka við hrognaklasanum af henni en í staðinn át hann hrognin. Það voru mikil vonbrigði," segir Margrét Lilja Magnúsdóttir, safnstjóri Sæheima í Vestmannaeyjum.

Á miðvikudag fylgdust starfsmenn safnsins og aðrir dolfallnir með eðlun steinbítspars og vonuðust til að hægt yrði að ala afsprengi mökunarinnar - nokkur hundruð seiði - í búrum. Það varð hins vegar uppi fótur og fit þegar hængurinn réðst að hrognaklasanum, sem var á stærð við meðalgreipaldin, og tók til matar síns.

„Við rukum til og fjarlægðum hann úr búrinu en hrygnunni fipaðist við þetta. Hrognin lágu bara eins og hráviði eftir hann þannig að hún skipti sér ekkert meira af þeim," segir Margrét. „Þetta var dramatískt. Hann hefði étið þau öll ef hann hefði fengið tækifæri til þess."

En ekki er öll nótt úti enn. Hængnum tókst ekki að gleypa nema um þriðjung hrognanna og vonir eru bundnar við að restin klekist eftir nokkrar vikur. Þá stendur til að reyna að ala seiðin á smáum krabbadýrum. Slíkt hefur verið reynt með loðnuseiði og humarlirfur.stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×