Erlent

Stuðningsmenn Mubaraks berja á mótmælendum

Átök hafa brotist út á Frelsistorginu í Kairó.
Átök hafa brotist út á Frelsistorginu í Kairó. Mynd / Al Jazeera.

Stuðningsmenn Hosni Mubaraks, forseta Egyptalands, berjast við mótmælendur á Frelsistorginu í Kaíró í Egyptalandi. Skothljóð hafa heyrst samkvæmt fréttastofu Al-Jazeera en mótmælendum og stuðningsmönnum Mubaraks lenti saman stuttu fyrir klukkan tvö í dag.

Stuðningsmenn Mubaraks eru meðal annars á hestbaki og á baki Úlfalda. Þeir eru vopnaðir svipum auk þess sem til handalögmála hefur komið.

Hópur mótmælenda reynir að hindra för stuðningsmanna Mubaraks til þess að vernda hina mótmælendurnar. Lögreglan og her fylgjast aðgerðarlaus með. Algjört upplausnarástand ríkir á götunum.

Viðbót klukkan 14:24.

Um 100 mótmælendur eru slasaðir eftir að þúsundir stuðningsmanna Mubaraks réðust á mótmælendur á Frelsistorgi í Kaíró. Mohamed ElBaradei segir í viðtali við Al-Jazeera sjónvarpsstöðina, að hann óttist blóðbað.

Stuðningsmenn Mubaraks eru margir hverjir á hestbaki og á baki úlfalda. Þeir eru vopnaðir svipum og jafnvel kylfum. Mótmælendur kasta steinum í stuðningsmennina á meðan herinn bíður átekta. Óljósar fregnir herma að einhverjir hermenn hafi reynt að skilja mótmælendur og stuðningsmenn Mubaraks að.

Byssuskot hafa heyrst en ekki er ljóst hverjir eru að skjóta á hvern en mikil upplausn ríkir á torginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×