Erlent

35 þúsund lögreglumenn í viðbragðsstöðu í Alsír

Jónas Margeir skrifar

Þúsundir mótmæla í Algeirsborg, höfuðborg Alsírs og meira en þrjátíu og fimm þúsund lögreglumenn eru sagðir í viðbragðsstöðu.

Mótmælendur söfnuðust saman á fyrsta maí torginu í Algeirsborg og veiga fjölmargir forsíðum dagblaða sem greina frá afsögn Hosni Mubaraks, fyrrverandi forseta Egyptalands.

Stjórnvöld í Alsír hafa lokað öllum aðgangsleiðum að Algeirsborg og hundruð manna hafa verið handteknir. Átök brutust út á milli lögreglu og mótmælenda en mótmælendur krefjast þess að Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsírs segir af sér. Hann hefur verið við völd frá árinu 1999.

Mótmæli voru bönnuð í Alsír árið 1992 en mótmælendur gefa nú lítið fyrir bannið og fyrirmæli stjórnvalda. Í von um að friðþægja mótmælendur afléttu stjórnvöld þó banninu en segja það þó enn gilda í Algeirsborg.

Byltingarandinn sem hófst í Túnis sem barst svo til Egyptalands er nú kominn til Alsírs en margir Mótmælendur hafa einnig komið saman í Jemen til að krefjast lýðræðisumbóta.

Þá er afsögn Hosni Mubaraks sögð hafa verið mikil hvatning fyrir alsírksku þjóðina. Margir óttast þó að til átaka komi á milli lögreglu og mótmælenda en erlendir fjölmiðlar hafa greint frá mörgum óstaðfestum dauðsföllum. Á tíunda áratugnum létu um tvö hundruð þúsund manns lífið í uppreisn í Alsír.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×