Fótbolti

Messi jafnaði 60 ára gamalt met

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki sínu í gær.
Lionel Messi fagnar marki sínu í gær. Nordic Photos / AFP
Lionel Messi skoraði í gær sitt 48. mark á tímabilinu og jafnaði þar með 60 ára gamalt met á Spáni.

Messi skoraði eina markið í 1-0 sigri Barcelona á Shakhtar Donetsk í Meistaradeild Evrópu í gær. Barcelona tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum keppninnar eftir 6-1 samanlagðan sigur á Shakhtar.

Argentínumaðurinn Messi hefur verið ótrúlegur á tímabilinu og skorað meira en eitt mark að meðaltali í leik. Mörkin 48 hefur hann skorað í 46 leikjum en í gær skoraði hann sitt níunda Meistaradeildarmark í tíu leikjum á núverandi leiktíð.

Um metjöfnun er að ræða hjá leikmanni í efstu deild á Spáni. Teimo Zarra skoraði 48 mörk tímabilið 1950-1951 en líklegt verður að teljast að Messi muni bæta metið síðar á tímabilinu.

Messi skoraði 47 mörk á síðustu leiktíð - jafn mörg og Ferenc Puskas gerði tímabilið 1959-60 með Real Madrid og Ronaldo með Barcelona fyrir fjórtán árum síðan.

Barcelona á enn sjö leiki eftir í spænsku úrvalsdeildinni, úrslitaleikinn í spænsku bikarkeppninni og minnst tvo leiki í Meistaradeild Evrópu.

Messi er markahæsti leikmaður spænsku úrvalsdeildarinnar með 29 mörk en næstur kemur Cristiano Ronaldo, Real Madrid, með 28 mörk. Ronaldo hefur skorað 39 mörk í 44 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu til þessa.

Mörk Messi 2010-2011Spænska úrvalsdeildin 29 (28 leikir)

Spænska bikarkeppnin 7 (6)

Spænski ofurbikarinn 3 (2)

Meistaradeildin 9 (10)

Ofurbikar UEFA 0 (2)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×