Innlent

Sláturfélagið segir nóg til af lambakjöti

Enginn skortur er á lambakjöti
Enginn skortur er á lambakjöti
Sláturfélag Suðurlands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem það er áréttað að enginn skortur sé á lambakjöti hjá félaginu og að verslanir geti pantað allar þær vörur sem Sláturfélagið er með á boðstólnum.

Tilefni tilkynningarinnar er umræða undanfarna daga og vikur um að lambakjöt skorti á innanlandsmarkaði og að neytendur geti ekki keypt kjöt þar sem það sé ekki á boðstólnum í verslunum.

Samkvæmt birgðaskýrslum Sláturfélagsins voru í byrjun ágúst til tæp 600 tonn af lambakjöti í landinu en áætluð sala í ágúst er 500 til 550 tonn.



Fréttatilkynning frá SS um birgðir lambakjöts

Undanfarna daga og vikur hafa komið fram fullyrðingar um að lambakjöt skorti á innanlandsmarkaði og neytendur geti ekki keypt kjöt þar sem það sé ekki á boðstólum í verslunum. Jafnframt hefur verið gefið í skyn að umræddur skortur sé að einhverju leyti tilbúinn þar sem sláturleyfishafar ætli að sitja á birgðum og selja þær síðar á hærra verði eða sem unna vöru fyrir jól.

Af þessum sökum vill Sláturfélagið árétta að engin skortur er á lambakjöti hjá félaginu og verslanir geta fengið alla vöruliði sem SS framleiðir í neytendapakkningum úr lambakjöti eins og þarf. Það er því engin ástæða til að láta þessar vörur vanta í verslanir.

Það er forgangsmál hjá SS að sinna innanlandsmarkaði og hefur félagið haldið eftir kjöti í samræmi við söluáætlanir og stöðvað útflutning vegna góðrar sölu innanlands.

Félagið hefur jafnframt deilt til annarra kjötvinnsla og sláturleyfishafa mörgum tugum tonna af kjöti undanfarið til að stuðla að því að markaðnum væri sinnt. Sláturfélagið verður birgðalaust í lok þessa mánaðar og engu kjöti verður haldið eftir sem hægt væri að selja.

Skv. birgðaskýrslum voru í upphafi ágúst til tæp 600 tn af lambakjöti í landinu. Áætluð sala í ágúst er 500 - 550 tn. Auk þess verður slátrað í mörgum sláturhúsum landsins í ágúst sem mun væntanlega leiða til þess að 50 - 100 tn verða til sölu af nýju kjöti í landinu.

Markaðnum verður því sinnt þó einhverjir aðilar hafi takmarkað framboð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×