Störfum við Sjúkrahúsið á Akureyri mun fækka um 20 til 25 á komandi ári sökum niðurskurðar.
Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er gerð 69 milljóna króna niðurskurðarkrafa, eða um 1,7 prósent, og við þá tölu bætist sá halli sem er á rekstri ársins 2011, sem stefnir í 100 milljónir. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Þorvaldi Ingvarssyni, forstjóra sjúkrahússins. Því þarf að skera niður um 169 milljónir á næsta ári.
Gera má ráð fyrir að niðurskurðurinn hafi áhrif á starfshagi 30 til 40 starfsmanna, en reynt verður eins og unnt er að nýta starfsmannaveltu við breytingarnar.
Kapp verður lagt á að bráðaþjónusta sé tryggð en búast má við því að bið eftir annarri þjónustu lengist. Aðgerðirnar verða útfærðar nánar á næstu vikum og verður starfsemisáætlun sjúkrahússins fyrir árið 2012 endanlega kynnt í desember.- sv
Fækkað um allt að 25 störfum
