Innlent

Bannað að rífa gafl við gamlan steinbæ

Hluti gafls aðliggjandi húss var skilinn eftir þegar það var rifið til að styðja við gamla steinbæinn á næstu lóð. Steinhleðslan hefur varðveislugildi segja Húsafriðunarnefnd og Minjasafn Reykjavíkur. Fréttablaðið/stefán
Hluti gafls aðliggjandi húss var skilinn eftir þegar það var rifið til að styðja við gamla steinbæinn á næstu lóð. Steinhleðslan hefur varðveislugildi segja Húsafriðunarnefnd og Minjasafn Reykjavíkur. Fréttablaðið/stefán
Tafir hafa orðið á byggingu fjölbýlishúss á Klapparstíg 17 vegna 112 ára gamals steinbæjar sem átti sameiginlegan gafl með húsi sem rifið var svo nýtt húsið gæti risið.

Við framkvæmdir kom í ljós að suðurgafl hússins á Klapparstíg 17 er um leið norðurgafl gamla steinbæjarins á númer 19. Eigandi bæjarins hefur viljað rífa hann og byggja upp á lóðinni en byggingarfulltrúi heimilar það ekki í ljósi umsagna frá Húsafriðunarnefnd og Minjasafns Reykjavíkur, sem vilja að húsið sé varðveitt. Í raun munu aðeins vera tveir upprunalegir veggir af húsinu.

Húsið sem fyrir stóð á númer sautján hefur verið rifið, að undanskildum þeim hluta gaflsins sem heldur uppi gamla steinbænum. Jón E. Halldórsson, verktakinn sem byggir nýja húsið, segir að jafnvel þótt gaflinn sameiginlegi hafi verið þynntur eins og hægt sé standi hann enn tíu sentímetra inni á lóð nýja hússins.

„Í sjálfu sér hef ég enga skoðun á þessum steinbæ en það hefði verið faglegra að fá að taka vegginn svo hægt væri að byggja alveg við lóðamörk,“ segir Jón, sem kveður það þó ekkert tiltökumál að verða við kröfum Reykjavíkurborgar. Þessi lausn rýri þó verðgildi nýja hússins, sem verði íbúðarhús með kjallara og þremur hæðum.

„Auðvitað gerir þetta það að verkum að húsið verður minna og fermetrarnir því færri. Þeir eru dýrir í miðbænum og að þessu leyti er þetta því tjón fyrir þá sem við erum að byggja fyrir,“ segir Jón.

Í umsögn byggingarfulltrúa Reykjavíkur um málið segir að núverandi steinhleðsla í norður­gafli steinbæjarins hafi varðveislugildi og eigi að vera óhreyfð. „Ber byggjandi fulla ábyrgð á því að valda ekki skemmdum á byggingu númer 19 með aðgerðum sínum,“ segir byggingarfulltrúinn.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er steinbærinn ekki í notkun um þessar mundir fyrir utan að þar er stundum kennsla í gítarleik.

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×