Innlent

Ræddi friðarumleitanir í Mið-Austurlöndum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur hitti Al Malki í gærkvöld. Mynd/ utanríkisráðuneytið.
Össur hitti Al Malki í gærkvöld. Mynd/ utanríkisráðuneytið.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræddi friðarumleitanir í Mið-Austurlöndum, stuðning við Palestínumenn í baráttu þeirra fyrir viðurkenningu á sjálfstæði og tvihliða samskipti Íslands og Jórdaníu á fundi með Nasser Judeh, utanríkisráðherra landsins í Amman í gær.

Utanríkisráðherra ítrekaði stuðning íslenskra stjórnvalda við sjálfstæði Palestínu, og þess að einangrun Gaza, sem hann heimsótti á miðvikudag, yrði aflétt þegar í stað.

Samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu lögðu ráðherrarnir áherslu á góð samskipti Íslands og Jórdaníu, m.a. þegar kemur að því hvernig vinveittar þjóðir geti lagt Palestínumönnum lið. Palestínska heimastjórnin stefnir að því að á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust verði samþykkt tillaga um stuðning við frjálsa Palestínu á grundvelli landamæranna frá 1967, og að nýtt ríki Palestínu verði tekið inn í Sameinuðu þjóðirnar.

Þá hitti Össur Skarphéðinsson Dr. Riad Al Malki, utanríkisráðherra í heimastjórn Palestínumanna, í Ramallah í gærkvöld. Þar undirrituðu þeir samkomulag um samráð íslenskra stjórnvalda og palestínsku heimastjórnarinnar. Samkomulagið fjallar um pólitískt samráð sem byggir á stofnun samstarfsnefndar milli Íslands og Palestínu, og samstarfi á sviði efnahagsmála, þróunarmála, menningarmála, viðskipta og menntunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×