Innlent

Rúm sex ár fyrir fíkniefnasmygl

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Junierey Kenn Pardillo Juarez hefur verið dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning. Maðurinn var fundinn sekur um að hafa flutt inn 36 þúsund alsælutöflur og 4500 skammta af LSD þann 23. mars síðastliðinn. Maðurinn fluttin efnin inn frá Las Palmas á Kanaríeyjum, en tollverðir fundu fíkniefnin í ferðatöskum mannsins við komu hans til Keflavíkurflugvallar.

Fram kemur í dómnum að maðurinn, sem er 23ja ára gamall hafi verið svokallað burðardýr. Hann hafi tekið að sér að fara til Spánar í því skyni að sækja fíkniefni og flytja þau til landsins. Fyrir þetta átti fíkniefnaskuld, sem hann hafði á bakinu, að lækka um nokkur hundruð þúsund krónur.

Dómurinn segir að varhugavert sé að fullyrða að maðurinn hafi vitað með vissu hvaða tegundir fíkniefna maðurinn hafi verið að flytja inn eða í hvaða magni, en maðurinn neitaði því staðfastlega að hann hafi vitað að hann væri að flytja inn alsælu. Dómurinn segir hins vegar að maðurinn beri refsiábyrgð á flutningi efnanna, enda hafi hann látið sér í léttu rúmi liggja hvaða fíkniefni var um að ræða og magn þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×