Innlent

Brim verður framlag Íslands til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Darri Ólafsson leikur eitt aðalhlutverkanna í Brim.
Ólafur Darri Ólafsson leikur eitt aðalhlutverkanna í Brim.
Kvikmyndin Brim verður framlag Íslands til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2011. Myndin mun keppa við eina mynd frá hverju hinna norrænu ríkjanna: Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Brim var valin mynd ársins á Eddunni í febrúar.

Í rökstuðningi á vali á Brim sem framlagi Íslands segir að hver persóna Brims sé dregin úr skýrum dráttum, ekki síst báturinn sjálfur og hafið sem stýri atburðarrásinni. Árni Ólafur Ásgeirsson leikstjóri haldi vel utan um söguna og persónur hennar sem séu leiksoppar öfgafullra aðstæðna. Andrúmsloftið sé þrúgandi og innilokunarkenndin vaxi í takt við ógnina sem steðji að. Myndatakan sé áhrifamikil og Brim fari með áhorfandann út á hrollblautt þilfarið og inn í þrúgandi innilokunnarkennd káettunnar af svo næmum skilningi og raunsæi að hún skilji eftir saltbragð í munni áhorfenda. Að lokinni ferð skili hún áhorfendum næstum heilum heim.

Í fréttatilkynningu vegna verðlaunanna kemur fram að sú mynd sem hlýtur verðlaunin fær um sjö milljónir íslenskra króna í verðlaunafé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×