Innlent

Óvíst hvernig nýja fangelsið verður fjármagnað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fangelsið á Hólmsheiði í Reykjavík verður gæsluvarðhalds- og afplánunarfangelsi fyrir 56 fanga. Aðspurður um hvort fangelsið verði reist með einkaframkvæmd eða ekki segir Ögmundur Jónasson það ekki afráðið. Það sé þó alveg víst að á endanum greiði skattborgararnir fyrir byggingu þess.

„Menn eru stundum, finnst mér, í þessari umræðu að stilla dæminu þannig að ríkisframkvæmd sé þannig að ríkið framkvæmi. En það á að bjóða verkið út og það verða fyrirtæki á markaði sem framkvæma. Það er líka alveg ljóst að það er skattgreiðandinn sem á endanum greiðir fyrir þessa framkvæmd og þetta mannvirki. Hvað varðar fjármögnunina að öðru leyti þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um það,“ segir Ögmundur. Hann kveðst vera gríðarlega ánægður með að búið sé að taka ákvörðun um byggingu fangelsisins, enda hafi málið velkst fyrir mönnum í ár jafnvel áratugi. Hann segir jafnframt að tekið hafi verið tillit til óska arkitekta um að teiknivinna vegna verksins yrði aðskilin frá öðrum verkþáttum í útboði. 

Ögmundur segir að fangelsið verði byggt í Reykjavík af hagkvæmnisástæðum. „Það sem réð þeirri ákvörðun að hafa fangelsið í Reykjavík er sú staðreynd að rekstrarkostnaður verður minni eftir því sem fjarlægðin er minni frá dómstólum á Reykjavíkursvæðinu til gæsluvarðhaldsfangelsis,“ segir Ögmundur. Oft sé þörf á miklum ferðum fram og til baka og því felist hagræði og sparnaður í því að hafa fangelsið í Reykjavík.




Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um byggingu fangelsis

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að tillögu innanríkisráðherra að hefja byggingu nýs gæsluvarðhalds- og öryggisfangelsis á Hólmsheiði, ofan Grafarholts í Reykjavík. Stefnt er að verklokum innan þriggja ára. Kostnaðaráætlun nemur um 2,1 milljarði króna, samkvæmt tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×