Innlent

Sigraðist á svínaflensu - dreymdi geimverur í dáinu

Valur Grettisson skrifar
Sigurlína var í lífshættu með svínaflensu. Nú, fimmtán mánuðum síðar, berst hún enn við afleiðingarnar. Hér er hún með barnabörnum og börnum.
Sigurlína var í lífshættu með svínaflensu. Nú, fimmtán mánuðum síðar, berst hún enn við afleiðingarnar. Hér er hún með barnabörnum og börnum.

„Ég ætlaði að hrista þetta úr mér yfir helgi," segir Sigurlína Rósa Kristmundsdóttir, fimm barna móðir, sem lá á milli heims og helju á gjörgæsludeild Landspítalans í tvær vikur og barðist við svínaflensu.

Sigurlína, sem er á fimmtugsaldrinum, veiktist í október árið 2009 en áttaði sig ekki strax á því að hún væri komin með svínaflensu. Hana grunaði það en læknar voru ekki sammála, þeir töldu að hún hefði fengið aðra flensu ofan í svínaflensuna.

„Ég skrifaði einmitt á Facebook-ið að ég hefði fengið tvo fyrir einn," segir Sigurlína fimmtán mánuðum eftir að hún veiktist heiftarlega af flensunni skæðu. Það var ekki fyrr en viku eftir að hún veiktist sem hún ætlaði að senda drengina sína þrjá í skólann sem elsti sonur hennar, sem er sextán ára gamall, óttaðist um velferð móður sinnar. Hann neitaði að fara í skólann því honum leist ekki á blikuna.

„Ég dröslaðist á klósettið en þegar ég kom fram stóð ég ekki í lappirnar," segir Sigurlína, sem er kölluð Rósa af vinum sínum. Hún segir son sinn hafa haldið sér uppi því hún hafði engan styrk í líkamanum.

„Ég var máttlaus og mér var alltaf rosalega heitt. Það var alltaf opið út því mér fannst allt svo súrefnislaust," lýsir Sigurlína sem ætlaði harka af sér þrátt fyrir að hafa misst máttinn. Hún skipaði drengnum að fara í skólann og fullvissaði hann um að hún myndi jafna sig.

Hún hringdi síðan í heimilislækninn sem vildi hitta hana sem fyrst. Sigurlína fékk þá vinkonu sína til þess að keyra sig til hans. Læknirinn rannsakaði ástand hennar og fannst sérkennilegt hvað hún var orðin andstutt þannig hann sendi hana upp á spítala. Þar var hún strax tekin afsíðis.

„Þar var ég spurð út í hitt og þetta en ég var alltaf að detta út," segir Sigurlína sem var komin með óráði á þessum tímapunkti. Dóttir hennar, sem er á þrítugsaldrinum, kom til hennar en Sigurlína segist líta muna eftir því.

„Ég var að segja henni að fara með strákana í skólann og hugsa um heimilið og eitthvað," segir Sigurlína hlæjandi en hún man lítið eftir spjalli sínu við læknana og dóttir sína.

Sigurlína reyndist vera með 42 stiga hita og fljótlega kom í ljós að líffærin voru við það að gefa sig. Þá var ljóst að hún væri í lífshættu. Sigurlína var svæfð í snarhasti og tengd við fjölmargar vélar sem sáu um að halda lífi í henni næstu tvær vikurnar.

Aðspurð hvort henni hafi brugðið þegar hún vaknaði upp úr dáinu svarar Sigurlína því til að hún hafi sjálf haldið hún hefði verið sofið mun lengur. Spurð hvað hún eigi við svarar Sigurlína: „Tíminn í svefninum leið mun hraðar en í vöku."

Sigurlína segist hafa farið að dreyma sérkennilega drauma.

„Mig dreymdi geimverur í dáinu," segir Sigurlína sem átti viðburðarríkar tvær vikur þrátt fyrir að liggja rúmföst.

„Þetta er mjög skýr minning. Ég var þarna á svakalegu ferðalagi," segir Sigurlína hlæjandi og bætir við að hún geri mikið grín af þessum draumförum, enda hafi þær verið með kvikmyndalegum blæ.

„Ég var búin að flækjast um heiminn í marga mánuði og var síðan haldið neðansjávar. Þar barðist ég við geimverurnar sem rændu að lokum dóttur minni," segir Sigurlína um sérkennilega upplifun sína í svefninum.

Sigurlína segir að það hafi svo komið í ljós að sennilega hafi það verið lungun hennar sem ollu því að hana dreymdi að hún væri neðansjávar, án þess þó að hún geti verið viss.

Þegar Sigurlína vaknaði aftur var líkamlegt ástand hennar afar bágborið. Hún þyrfti að læra að ganga upp á nýtt og gat ekki drukkið úr glasi.

„Í fyrstu drakk ég í gegnum svamp, síðan lærði ég að sjúga í gegnum rör. Svo tókst mér að lokum að drekka úr glasi," segir Sigurlína sem var í endurhæfingu í tvo mánuði.

Nú, fimmtán mánuðum síðar, á Sigurlína afar erfitt með einföldustu hluti. Hún er enn að jafna sig og segist ekki vita hvort hún muni nokkurn tímann ná fullum bata á ný.

„Læknarnir geta ekkert sagt mér," segir Sigurlína sem berst enn við afleiðingar flensunnar. Hún hvetur fólk til þess að taka ekki áhættuna og fara í bólusetningu, enda aldrei að vita.

Spurð hvað hún hafi lært af reynslunni segir Sigurlína að hún sé þakklát fyrir gott heilbrigðiskerfi. „Og auðvitað magnað starfsfólk sem fær ekki alltaf það hrós sem það á skilið."

„En þetta breytti viðhorfi mínu til lífsins. Ég lifi fyrir daginn í dag."

Sigurlína segist ekki vita hvort hún nái fullum bata á ný, en hún segist stefna á það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×