Innlent

Fólk fari af atvinnuleysisbótum

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson. Mynd/GVA
„Besta kaupmáttaraukningin sem við fáum er að sjálfsögðu að fólk fari af atvinnuleysisbótum og í vinnu. Það slær ekkert út slíkri kaupmáttaraukningu," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Rætt var við Vilhjálm í Reykjavík síðdegis. Þar var hann spurður hvort ekki þurfi að hækka laun svo almenningur geti staðið undir verðlagshækkunum. Því svaraði Vilhjálmur með eftirfarandi hætti: „Sem betur hefur verðbólgan verið á niðurleið og meira en það. Ef við lítum til síðasta árs þá var Hagstofan nýlega að gefa út að laun hefðu hækkað umfram verðbólgu og kaupmáttur í rauninni aukist um tvö prósent. Þetta kom mér á óvart og ég hygg að svo eigi við um fleiri."

Þá sagði hann: „Við þurfum að búa við það ástand að verðbólgan sé lægri þannig að kaupmátturinn vaxi."

Undanfarna daga hafa hugmyndir um samræmda launastefnu aðila á vinnumarkaði verið til umræðu. Innan verkalýðshreyfingarinnar eru ekki allir sáttir við þær hugmyndir. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins klofnaði í dag vegna málsins þegar Verkalýðsfélag Akranes ákvað að slíta samstarfi við Starfsgreinasambandið í komandi kjaraviðræðum.

Vilhjálmur telur aftur á móti brýnt að samræma launastefnuna. „Ég er mjög hlynntur því að við tökum upp samræmda launastefnu og horfum til þriggja ára. Þá eru líka mestu líkurnar að við getum hækkað launin hóflega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×