Erlent

Gríðarlega fjölmenn mótmæli í Kairó

Þúsundir eru samankomnar á Frelsistorginu í Kairó.
Þúsundir eru samankomnar á Frelsistorginu í Kairó.
Mótmælendur streyma að Frelsistorginu í Kairó höfuðborg Egyptalands en þeir stefna að því að milljón manns gangi að forsetahöllinni í borginni síðar í dag til að krefjast afsagnar Hosni Mubaraks forseta landsins.

Hunduð þúsunda manna eru saman komnir á Tharir torgi, eða Frelsistorginu í Kairó en þúsundir manna höfðust við á torginu í nótt. Mótmælendur stefna að því að milljón manns gangi síðar í dag frá torginu að forsetahöllinni til að krefjast þess að Hosni Mubarak forseti segi af sér. Mótmælendur segja breytingar sem hann gerði á ríkisstjórninni í gær dugi ekki til að koma á friði í landinu. Omar Suleiman sem Mubarak skipaði í nýtt embætti varaforseta í fyrradag, sagði í egypska ríkissjónvarpinu í gær að stjórnvöld væru reiðubúin til viðræðna við pólitísk öfl í landinu um breytingar á stjórnarskrá og lögum landsins.

Mótmælendur láta þessi ummæli hins vegar sem vind um eyru þjóta á meðan forsetinn situr enn við völd. Þeim hefur vaxið ásmegin eftir að herinn lýsti því yfir að hann myndi ekki beyta almenning í landinu valdi og að kröfur fólksins í landinu væru lögmætar. Mikil reiði ríkir í landinu eftir að stjórnvöld lokuðu fyrir aðgang að internetinu í síðustu viku.

Stöðugt fjölgar í hópi mótmælenda og nú segir sjónvarpsstöðin að yfir milljón manns séu saman komnir á Frelsistorginu. El-Baradei einn talsmanna mótmælenda skorar á forsetann að segja af sér nú þegar til að forðast blóðbað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×