Erlent

Telja að fljúgandi furðuhlutur hafi lent í Indónesíu

Margir íbúar Indónesíu eru þess fullvissir að fljúgandi furðuhlutur hafi lent á hrísgrjónaakri í landinu um síðustu helgi.

Á sunnudag fannst um 70 metra breiður svokallaður akurhringur á hrísgrjónaakri í héraðinu Slemen. Inn í hringnum er nokkuð flókið blómamynstur.

Samkvæmt frásögnum þarlandra fjölmiðla eru margir íbúar héraðsins þess fullvissir að fljúgandi furðuhlutur eða geimskip hafi lent á akrinum og segjast hafa séð spor eftir skipið. Lögreglan hefur nú girt akurinn af.

Staðaryfirvöld höfðu samband við NASA, Geimferðarstofnun Bandaríkjanna, og báðu um að sérfræðingar NASA yrðu sendir til Slemen til að rannsaka málið. Þessu hafnaði NASA og sagði að akurhringurinn væri greinilega gerður af mönnum.

Nokkrir af þeim bændum sem eiga land við akurinn hafa síðan tekið sig til og opnað litla búðarbása við hann þar sem þeir selja ljósmyndir af akurhringnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×