Innlent

Funamálið: Skortur á fagmennsku og jafnvel vanræksla

Umhverfisnefnd hefur falið Ólínu Þorvarðardóttur að vinna tillögur að lagabreytingum þar sem fastar er kveðið á um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnsýslustofnana,
Umhverfisnefnd hefur falið Ólínu Þorvarðardóttur að vinna tillögur að lagabreytingum þar sem fastar er kveðið á um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnsýslustofnana,
Málefni sorpbrennslunnar Funa á Ísafirði var til umfjöllunar hjá umhverfisnefnd Alþingis í morgun. Þar var farið yfir greinargerð Ólínu Þorvarðardóttur, nefndarmanns og þingmanns Samfylkingarinnar, þar sem hún tók sama löggjöf um umhverfismál og upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Í greinargerðinni segir að í Funamálinu hafi mestu ráðið „skortur á upplýsingaflæði, lítil eftirfylgni og takmörkuð heildarsýn" en ekki verði heldur horft framhjá „skorti á fagmennsku, lélegu gagnalæsi og jafnvel vanrækslu" í vissum tilvikum. Bent er á að ekki skorti úrræði eða eftirlitsreglur vegna starfsleyfa í lögum og reglum, hinsvegar vanti festu við framkvæmdina.

Meginniðurstaða athugunarinnar um löggjafarþátt málsins er að þar sé ekki nægilega gætt almannahagsmuna og almannaheilla, að kveða þurfi skýrar á um frumkvæðis- og viðbragðsskyldu stjórnsýslustofnana, og tryggja rétt almennings til verndar heilsu og lífsgæða. Í niðurstöðukafla greinargerðarinnar eru talin fimm lög sem ástæða geti verið til að endurskoða í þessu ljósi.

Nefndin ákvað í lok umfjöllunar sinnar um greinargerðina að fela Ólínu að móta hugmyndir að breytingum á þessum lögum, og hyggst fjalla nánar um framhald málsins þegar því verki er lokið.

Á fundinum tóku fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd skýrt fram að þeir tækju, að svo stöddu, ekki efnislega afstöðu til greinargerðar Ólínu Þorvarðardóttur, sem tekin var saman í tilefni af málefnum sorpbrennslunnar Funa á Ísafirði. Á það jafnt við um umfjöllun hennar og niðurstöður.

Varðandi framhald málsins kom jafnframt fram af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að þeir geri í sjálfu sér engar athugasemdir við að Ólína Þorvarðardóttir eða aðrir nefndarmenn skili tillögum til lagabreytinga í þessum efnum til nefndarinnar, en muni að sjálfsögðu taka afstöðu til einstakra tillagna þegar þær liggi fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×