Innlent

Austurstræti verður göngugata til frambúðar

Götulistamenn geta nú flutt verk sín í Austurstrætinu án þess að bílaumferð trufli.
Götulistamenn geta nú flutt verk sín í Austurstrætinu án þess að bílaumferð trufli.

Gangandi vegfarendur fá að njóta sín í miðborg Reykjavíkur í sumar. Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í vikunni var ákveðið að Austurstræti verði göngugata, Lækjargata verði sameiginlegt rými að hluta til og Pósthússtræti skilgreint sem gönguleið að Hörpunni. „Búast má við iðandi mannlífi í miðborginni," að því er fram kemur í tilkynningu.

„Við opnuðum götur síðasta sumar fyrir gangandi vegfarendum og mæltist það mjög vel fyrir," segir Karl Sigurðsson formaður umhverfi- og samgönguráðs.

„Þetta verður ennþá skemmtilegra núna þar sem breytingarnar í þágu gangandi og hjólandi verða tilbúnar um leið og húsið á horni Austurstrætis og Lækjargötu opnar," segir hann og býst við iðandi mannlífi á þessum slóðum.

Kort af breytingunum í miðborginni af vef Reykjavíkurborgar. Smellið til að sjá það stærra.
Þá var einróma samþykkt að Austurstræti verði varanlega breytt í göngugötu frá Lækjargötu út að Pósthússtræti.

„Ráðið kallaði einnig eftir útfærslum á því hvernig breyta megi Lækjargötu í sameiginlegt rými ólíkra ferðamáta: gangandi, hjólandi, keyrandi. Ráðið lagði einnig til að Pósthússtræti verði skilgreint sem leið gangandi og hjólandi að Hörpunni og að gönguleiðin frá Tryggvagötu að Hörpunni verði fest í sessi í skipulagi. Umhverfis og samgönguráð lagði jafnframt til að gangandi yrði gert hærra undir höfði á Laugavegi, Skólavörðustíg og Bankastræti í samráði við verslunar- og þjónustuaðila og íbúa í nánasta nágrenni," segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×