Erlent

Kóngurinn stamandi rúllaði upp BAFTA

Kvikmyndin The King's Speech var sigursæl á BAFTA verðlaununum sem fram fóru í gærkvöld. BAFTA verðlaunin eru eru einskonar óskarsverðlaunahátíð Breta. The Kings Speech fékk 14 tilnefningar og vann á endanum í sjö flokkum, þar á meðal sem besta myndin og fyrir besta leikara í aðalhlutverki, Colin Firth.

David Fincher sigraði í flokknum besti leikstjórinn en hann leikstýrði Facebook myndinni The Social Network, og Natalie Portman fékk verðlaunin fyrir besta leik konu í aðalhlutverki í ballet myndinni Black Swan. Velgengni The Kings Speech er ekki met í sögu BAFTA, en Butch Cassidy and the Sundance Kid vann níu verðlaun á sínum tíma, Killing Fields vann átta en The Kings Speech jafnaði hinsvegar árangur myndarinnar Slumdog Millionaire með því að hampa sjö styttum.

Velgengni myndarinnar, sem fjallar um tilraunir Georgs sjötta bretakonungs til þess að vinna bug á stami sínu, hefur komið mörgum á óvart en hún kostaði aðeins um tíu milljónir punda í framleiðslu. Búist er við að hún verði búin að hala inn 125 milljónir punda þegar Óskarsverðlaunahátíðin fer fram síðar í mánuðinum. Þar er hún tilnefnd til 12 verðlauna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×