Innlent

Ekki skrifað undir slakan samning

Á fundi Iceland Seafood. Fyrirtækið stóð fyrir vel sóttri umræðu um ESB og sjávarútveginn í gær í tilefni „markaðsdags“ fyrirtækisins. Þar ræddi meðal annars Þorsteinn Pálsson, sem situr í samninganefnd Íslands gagnvart ESB, um stöðu mála.Fréttablaðið/vilhelm
Á fundi Iceland Seafood. Fyrirtækið stóð fyrir vel sóttri umræðu um ESB og sjávarútveginn í gær í tilefni „markaðsdags“ fyrirtækisins. Þar ræddi meðal annars Þorsteinn Pálsson, sem situr í samninganefnd Íslands gagnvart ESB, um stöðu mála.Fréttablaðið/vilhelm

„Ég segi að ef við náum ekki fullnægjandi niðurstöðu þá skrifum við ekki undir," sagði Þorsteinn Pálsson, fulltrúi í samninganefnd Íslands gagnvart ESB, á fundi Iceland Seafood um ESB og sjávarútveg í Iðnó í gær. Hann væri því ekki einn af þeim sem lofuðu þjóðinni atkvæðagreiðslu um aðild að ESB undir öllum kringumstæðum.

Þorsteinn sagðist heldur ekki lofa því að hægt yrði í samningaviðræðum að tryggja hagsmuni sjávarútvegs að öllu leyti: „En það eru möguleikar á því og við eigum að láta á reyna."

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, talaði einnig á fundinum og sagði að með aðild yrði lagasetningarvald um sjávarútveg flutt til Brussel.

„Fiskimiðin okkar yrðu sameiginleg auðlind Evrópusambandsins," sagði hann. Adolf lagði í framsögu sinni áherslu á að stöðugleikareglan, um að þjóð sem hefði ákveðna veiðireynslu hefði þann rétt óskoraðan áfram, yrði „geirnegld" inn í aðildarsamning, svo henni yrði ekki breytt síðar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, spurði framsögumennina tvo álits á nýlegum makrílveiðum Íslendinga: hvað hefði orðið um þær ef þjóðin hefði verið í ESB?

Þorsteinn svaraði því til að um deilistofna væru Íslendingar skuldbundnir til að semja við aðrar þjóðir og staða til slíkra samninga væri betri innan ESB en utan og vísaði til sterkrar stöðu Skota.

Adolf fullyrti hins vegar að innan ESB hefðu Íslendingar „ekki fengið eitt einasta kíló".- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×