Innlent

Orkuskipti í samgöngum - ítarleg áætlun liggi fyrir í vor

Hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum er sagt töluvert lægra hér en annars staðar, eða undir einu prósenti. Fréttablaðið/Stefán
Hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum er sagt töluvert lægra hér en annars staðar, eða undir einu prósenti. Fréttablaðið/Stefán

Tillaga til þingsályktunar um orkuskipti í samgöngum hefur verið lögð fram á Alþingi. Fram kom í máli Katrínar Júlíus­dóttur iðnaðarráðherra sem mælti fyrir tillögunni að markmiðið með henni væri að stuðla að uppbyggingu græna hagkerfisins með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Orkuskiptin eiga að leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda, gjaldeyrissparnaðar, þekkingarauka og aukinnar atvinnu.

Fram kemur í tillögunni að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum hér á landi sé töluvert lægra en annars staðar, eða undir einu prósenti. Fram kemur að að innan Evrópusambandsins hafi verið stefnt að því að hlutfallið næði 5,75 prósentum fyrir árið 2010.

Í tilkynningu iðnaðarráðuneytisins í gær kemur fram að til að ná hér settu marki hafi verið sett fram níu stefnumið sem lúti meðal annars að því að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að nýta sér orkusparandi tækni. Er þar til dæmis beitt skattaívilnunum og hagrænum hvötum. „Jafnframt er lögð mikil áhersla á fræðslu, nýsköpun og rannsóknir á sviði endurnýjanlegra orkugjafa," segir þar.

Í maí næstkomandi á svo að liggja fyrir stefnumótun, markmiðasetning og aðgerðaáætlun fyrir orkuskipti í samgöngumálum fram til ársins 2020. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×