Innlent

Í lífshættu vegna svínaflensu

Sóttvarnalæknir hvetur fólk til að láta bólusetja sig sem fyrst.
Sóttvarnalæknir hvetur fólk til að láta bólusetja sig sem fyrst.

Þrítug kona liggur nú á gjörgæsludeild Landspítala með alvarleg sjúkdómseinkenni af völdum svínainflúensu. Konan var lögð inn í fyrradag. Hún hafði ekki verið bólusett gegn inflúensunni en er með undirliggjandi áhættuþætti sem auka líkur á alvarlegum veikindum af völdum inflúensunnar.

„Það er staðfest að eitthvað á annan tug manna hefur fengið hana hér,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknis. „Einnig fylgjumst við með inflúensulíkum einkennum og hafa nú verið skráð á annað hundrað tilvik. Mjög líklegt er að um svínainflúensu sé að ræða í þessum tilvikum, þar sem hún hefur verið staðfest hér.

Við erum hins vegar að vona að bólusetningin dragi verulega úr faraldrinum.“

Mikið álag er nú á gjörgæsludeildum í mörgum nágrannalöndunum vegna svínainflúensunnar sem sækir í sig veðrið, að því er Haraldur segir.

Enn sem komið er virðist inflúensan ekki hafa náð mikilli útbreiðslu í samfélaginu hér.

Er fólk sem ekki hefur fengið inflúensubólusetningu hvatt til að láta bólusetja sig sem fyrst, að sögn sóttvarnalæknis.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×