Innlent

Íhuga að kaupa spjaldtölvur fyrir Alþingismenn í sparnaðarskyni

Spjaldtölva.
Spjaldtölva.
„Ég get staðfest að það var rætt í ágúst, í forsætinefnd þingsins, að kanna hollensku leiðina. Það er að segja að skoða hvort það væri hagkvæmt að kaupa Ipad fyrir þingmenn," sagði Karl M. Kristjánsson, fjármálastjóri Alþingis í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, en þingið íhugar að kaupa spjaldtölvur fyrir þingheim til þess að spara pappírskostnað, sem hleypur á milljónum.

Ástæðan fyrir því að þessi lausn hefur verið skoðuð er sú að hollenska þingið tók upp á því á dögunum að kaupa spjaldtölvur fyrir þingheim og banna í leiðinni að prenta út. Gert er ráð fyrir því að pappírskostnaðurinn minnki stórlega.

Reykjavík Síðdegis kannaði hversu mikið það myndi kosta að fjárfesta í spjaldtölvum fyrir Alþingi og fann út að um 100 tölvur kosta sex milljónir króna.

Karl sagðist aðspurður ekki hafa nákvæma tölu á pappírskostnaði Alþingis en sagði hann talsverðan. Þannig kaupir Alþing í það minnsta fjölritunarpappír fyrir tvær og hálfa milljón króna á ári.

Karl tók jákvætt í hugmyndina og sagði að hún væri til skoðunar, eins og allar nýjungar sem vert er að skoða.

Hann segir hugmyndina vera til alvarlegra skoðunar, en benti ennfremur á að ef spjaldtölvurnar yrðu teknar upp, þyftu vinnubrögð á þinginu að breytast með afgerandi hætti. „Og allir þurfa að taka þátt í þeim breytingum," bætti Karl við.

Ekki liggur fyrir hvenær ákvörðun verður tekin um spjaldtölvurnar. Málið er einfaldlega til skoðunar að sögn Karls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×