Innlent

Hefur ekki áhyggjur af niðurskurði vegna jafnréttismála

Formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur hefur ekki áhyggjur af því að skorið verði á fjárveitingar til íþróttafélaga sem sinna ekki jafnréttismálum. Hann hvetur til þess að jafnréttismál verði skoðuð í fleiri tómstundagreinum sem eru á framfæri borgarinnar.

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar vann nýverið úttekt á jafnréttismálum innan tíu íþróttafélaga. Þar kemur fram að fleiri strákar stundi hópíþróttir en stelpur, en strákar eru meira en tvöfalt fleiri í bæði knattspyrnu og körfubolta.

Helmingur íþróttafélaganna er með kynjaða jafnréttisstefnu, en ekkert þeirra er með aðgerðaáætlun um hvernig eigi að framfylgja stefnunni. Í úttektinni er lagt til að virk jafnréttisáætlun verði skilyrði þess að styrkjum sé úthlutað til félaganna. Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur segist ekki hafa áhyggjur af því.

Ingvar telur að íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu leggi sig fram um að fá bæði kynin til þátttöku og sinni jafnrétti, og fagnar því að skýrslan bendi til að aðstaða kynjanna til iðkunar sé jafngóð. Ef ábendingar berist um hvernig hægt sé að gera betur, þá sé það vel. Ingvar segir að það væri áhugavert að sjá hvernig jafnréttismálum sé háttað í öðrum tómstundum sem borgin styrkir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×