Innlent

Hrunið erfitt fyrir orkuskólann Reyst

Edda Lilja Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Reyst, segir hrunið hafa sett strik í reikninginn.
Edda Lilja Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Reyst, segir hrunið hafa sett strik í reikninginn.
Orkuskólinn REYST stendur ágætlega fjárhagslega og getur vel rekið sig, þrátt fyrir að Háskóli Íslands hafi dregið sig úr verkefninu og Orkuveita Reykjavíkur hætt fjárstuðningi, að sögn framkvæmdastjóra skólans. Tíu til tuttugu nemendur hefja nám við skólann í haust.

Hlutafélag um Orkuskólann Reyst var stofnað í febrúar 2008. Rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík ásamt þáverandi stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur undirrituðu hlutahafasamkomulagið og hóf fyrsti árgangurinn nám við skólann haustið sama ár. Hlutafélagið var í jafnri eigu háskólanna tveggja og Orkuveitunnar.

Markmið skólans er að stuðla að uppbyggingu náms og þekkingar á sviði endurnýjanlegrar orku,  laða að hæfileikafólk og fjölga hæfum starfsmönnum Þetta er eins og hálfs árs mastersnám og eru skólagjöldin ein og hálf milljón.

Aðsókn hefur hins vegar verið undir væntingum og þá hefur Orkuveitan þurft að hætta fjárveitingum til skólans í sparnaðarskyni. Í gær sögðum við svo frá því að Háskóli Íslands hefði dregið sig úr verkefninu og sagði Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, að það hefði meðal annars verið gert af því að útskrifaðir nemendur hefðu ekki fengið störf í orkugeiranum hér á landi.

Edda Lilja Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Reyst segir þetta ekki rétt hjá Jóni Atla.

„Þó að eigandinn á þessu félagi, Orkuveitan, hafi ekki verið að ráða fólk, þá eru önnur fyrirtæki sem hafa ráðið fólk inn í geirann,“ segir Edda og nefnir Reykjavík Geothermal og Verkfræðistofuna Verkís og fleiri fyrirtæki sem dæmi.

Edda segir það rétt að aðsókn haf verið undir væntingum en nemendur verða á bilinu tíu til tuttugu næsta haust en ekki þrjátíu eins og lagt var upp með í byrjun

„Það er rétt. Við lögðum upp með stærra prógram en raunin varð en allir vita hvað gerðist 2008. Það setti strik í reikninginn hér og annars staðar.“

En það gerist ekki á einum degi að byggja upp alþjóðlegt meistaraprógram. Þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og við höfum úthald til að klára málið," segir Edda og bætir við að skólagjöld nemenda ein og sér standi undir rekstri skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×