Innlent

Nöfn og myndir af sölunum í Hörpu

Salurinn Eldborg eins og stefnt er að því að hann líti út
Salurinn Eldborg eins og stefnt er að því að hann líti út Tölvugerð mynd/Harpa
Salirnir í Hörpu hafa nú fengið sín formlegu nöfn. Nöfn fjögurra stærstu salanna verða Eldborg, Norðurljós, Silfurberg og Kaldalón.

Sérstök nafnanefnd hefur verið að störfum undanfarnar vikur og voru fjölmargar nafnahugmyndir skoðaðar, en þar voru bæði nöfn úr tónlistarsögunni auk nafna úr menningu og náttúru landsins. Nafnanefndin var undir forystu Péturs J. Eiríkssonar, en hugmyndir komu víða að.

Nöfnin fjögur eru talin ríma vel við ólíka hönnun og liti salanna. Það má ennfremur segja að þessi nöfn vísi til frumkraftanna fjögurra: eldur, loft, jörð og vatn, en í austurlenskum fræðum er það talið skapa góðan anda og jafnvægi í húsakynnum ef öll þessi efni eru til staðar. Það er stærsti salurinn, sjálfur tónleikasalurinn, sem hefur fengið nafnið Eldborg. Hinn tónleikasalurinn mun heita Norðurljós. Ráðstefnusalurinn mun heita Silfurberg og fjórði salurinn, sem er þeirra minnstur, fær nafnið Kaldalón.

Tölvugerðar myndir af stóru sölunum má sjá í meðfylgjandi myndasafni

Allir salirnir eru hannaðir miðað við nýjustu strauma og tækni í tónlistar- og ráðstefnuheimum, að því er kemur fram í tilkynningu frá Hörpu. Hönnun þeirra miðast við að þar geti farið fram alls kyns ólíkir viðburðir, sýningar eða veislur.

Önnur salarkynni og fundarherbergi hafa einnig fengið nöfn og eru þau einnig ættuð úr náttúrunni eða nánar tiltekið þar sem land og vatn mætast. Þessi herbergi verða kölluð Nes, Vör, Vík og Sund. Sýningarsvæðin tvö í ytri rýmum Hörpunnar munu heita Flói og Eyri og skiptanleg ráðstefnuherbergi hafa fengið nöfnin Ríma, Vísa og Stemma.

Norðurljós
Kaldalón
Silfurberg
Eldborg
Harpa séð utan frá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×